Spurt og svarað

Hvað er að vera Trans?
Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Þegar við fæðumst er í langflestum tilfellum tilkynnt um kyn okkar, hér er fæddur lítill drengur eða lítil stúlka. Fólk sem hefur aldrei þurft að efast um að þessi tilkynningin hafi verið rétt er sískynja. Þetta á við um velflesta.
Trans fólk, aftur á móti, hefur á einhverjum tímapunkti efast um að það kyn sem tilkynnt var um við fæðingu sé rétt og passi. Athugið að hér er ekki átt við líffræðileg kyneinkenni fólks heldur upplifun fólks af kyni sínu.
Undir trans regnhlífina falla trans karlar, trans konur og kynsegin einstaklingar, fólk sem fer í leiðréttingaraðgerðir sem og fólk sem fer ekki í aðgerðir. Trans er á íslensku notað sem lýsingarorð eitt og sér (sbr. að vera trans) eða með öðrum orðum (sbr. hún er trans kona).
Tengist ekki kynhneigð
Það að vera trans vísar til kynvitundar en ekki kynhneigðar. Trans fólk getur haft hvaða kynhneigð sem er. Áður fyrr var það talið merki um að fólk væri raunverulega trans ef það reyndist gagnkynhneigt eftir að hafa farið í gegnum kynleiðréttingu. Í dag hefur þekkingu okkar fleygt fram og gagnkynhneigð er af læknum ekki álitin eftirsóknarverðari eftir kynleiðréttingu en hvaða önnur kynhneigð sem er.
Trans börn
Vegna þess hve mjög umræðan um trans málefni hefur opnast er trans fólk sífellt yngra þegar það getur tjáð sig um kynvitund sína. Á Íslandi eru í dag fjölmörg dæmi um börn á grunnskólaaldri og jafnvel á leikskólaaldri sem eru trans og lifa í samræmi við það kyn sem þau upplifa að passi þeim best.
Trans? Karl eða kona?
Margt fólk ruglar saman orðunum trans karl og trans kona. Góð þumalputtaregla til að muna merkingu hvors orðs er að alltaf er talað um fólk í því kyni sem það er í dag. Þannig er trans karl til dæmis manneskja sem í æsku (eða lengur) var álitin stelpa/kona af samfélaginu en lifir í dag sem karl.
Sumt trans fólk kýs að nota orðið trans um sjálft sig og segist til að mynda vera trans kona. Annað trans fólk notar það hugtak lítið eða alls ekki um sjálft sig. Þar geta legið ólíkar ástæður að baki. Margt trans fólk upplifir það sem mótandi þátt fyrir sjálfsmynd sína að hafa farið í gegnum kynleiðréttingarferli eða verið álitið af öðru kyni í æsku. Þannig finnst því mikilvægt að nota orðið trans um sjálft sig til að leggja áherslu á hversu stór og mótandi þáttur það að vera trans er. Annað trans fólk upplifir þetta á ólíkan hátt og finnst það að vera trans ekki miðlægur þáttur í þeirra sjálfsmynd. Þeim finnst mikilvægara að vera kona, karl eða manneskja (fremur en trans kona, trans karl eða trans manneskja) og vilja stundum síður að annað fólk viti að það sé trans. Mikilvægt er að virða val hvers og eins í þessum efnum.
Kynvitund
Kynvitund segir til um hvernig fólk vill lifa og vera í sínu kyni. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits heldur upplifunar fólks af eigin kyni. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sitt á einhvern hátt.
Fæstir þurfa nokkru sinni að hugsa út í kynvitund sína því hún samræmist því kyni sem þeim var úthlutað við fæðingu. Flestir eru sem sagt sískynja og hafa aldrei þurft að efast um að það kyn sem ljósmóðirin tilkynnti þegar þeir fæddust sé þeirra rétta kyn. Aðrir efast eða eru fullvissir um að það kyn sem ljósmóðirin gaf upp sé ekki þeirra rétta kyn og eru því trans.
Kynvitund getur verið margs konar. Sumt fólk upplifir sig sem karla, aðrir sem konur og sumir upplifa sig sem blöndu af hvoru tveggja og eru þá kynsegin. Enn aðrir upplifa sig hvorki sem konu né karl. Sumir fara í aðgerðir eða taka inn hormóna til að breyta líkama sínum og útliti og samræma það þannig við kynvitund sína. Það er kallað að fara í kynleiðréttingu. Sumir vilja ekki fara í slíkar aðgerðir.Að leiðrétta kyn sitt
Kynleiðrétting er ferli sem sumt trans fólk fer í gegnum til að leiðrétta kyn sitt. Það getur til að mynda falið í sér hormónainntöku, brjóstnám og/eða aðgerðir á kynfærum. Kynleiðrétting vísar ekki eingöngu til skurðaðgerða á kynfærum þó að slík aðferð geti verið einn þáttur kynleiðréttingarferlis.
Ekki nauðsynlegt að fara í aðgerðir til að vera trans
Sumt trans fólk kýs að fara eingöngu á hormóna en sleppir öllum aðgerðum. Aðrir fara í aðgerðir eins og brjóstnám en sleppa öðrum þáttum kynleiðréttingar. Val hvers og eins einstaklings er mjög persónuleg ákvörðun og að baki þess geta legið margvíslegar ástæður. Hérlendis er ekki skylda að fara í nokkurs konar aðgerðir eða taka inn hormón til að fá leiðréttingu á kyni sínu í þjóðskrá. Þó þarf fólk að hafa lifað í því kynhlutverki sem það kýs sér í ákveðinn tíma áður en slík leiðrétting fer fram. Fólk getur verið trans hvort sem það kýs að fara í kynleiðréttingarferli eða ekki.
Hvað er að vera kynsegin?
Kynsegin einstaklingar eru þau sem skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar karl eða kona. Sumt kynsegin fólk finnur sig algerlega utan kynjatvíhyggjunnar, aðrir finnst þeim tilheyra fleiri en einu kyni eða jafnvel er kynvitund þeirra flöktandi.
Algengast er að þau noti persónufornafnið hán eða önnur kynhlutlaus fornöfn. Einnig eru einstaklingar sem nota fleiri en eitt persónufornafn.
Hvað á ég að gera núna?
Fyrstu skrefin.
Andaðu! Það má hafa áhyggjur en það hafa fleiri gengið í gegnum þetta og við erum hér sem stuðningur. Þetta virðist vera mjög mikið fyrst en við skulum reyna að einfalda þetta svolítið fyrir ykkur.
Við erum með Facebook hóp þar sem er hægt að setja inn spurningar, fá ráðgjöf eða stuðning. Þetta er lokaður hópur og engum hleypt inn sem á ekki erindi þanngað svo endilega sendu stjórnendum síðunar póst til að ganga í hópinn. Hópurinn er lokaður þar sem mikið af trans börnum og ungmennum hérlendis lifa sem sitt rétta sjálf án vitneskju annara.
Samtökin ´78 bjóða uppá fræðslu og ráðgjöf sem er endurgjaldslaus. Hægt að panta ráðgjöf hér.
Samtökin ´78 eru líka með stuðningsfundi fyrir foreldra og aðstandendur síðasta miðvikudag í mánuði kl.20 á Suðurgötu 3, 101 Reykjavík.
Það er hægt að senda okkur tölvupóst og við aðstoðum eftir bestu getu. Samtökin ´78 er líka með mikið af upplýsingum.
Hvað með aðgengi? T.d. í sundlaugar og líkamsrækt
Trans Ísland hafa tekið saman lista yfir sundlaugar og líkamstækt sem eru með einstaklingsklefa og taka vel á móti trans einstaklingum sem vilja nota þá. Hér má nálagast þann lista.
Hvað með upplýsingar um Sálfræðinga og Listmeðferðarfræðinga?
Hérna er listi yfir starfandi Listmeðferðarfræðinga á Íslandi.
Listi yfir Sálfræðinga/stofur sem sinna trans börnum og ungmennum er væntanlegur.