Samþykktir

Samþykktir fyrir Hagsmunasamtök foreldra og aðstandenda trans barna og ungmenna á Íslandi – Trans vinir

1.gr.
Félagið heitir Hagsmunasamtök foreldra og aðstandenda trans barna og ungmenna á Íslandi, stutt nafn þess verður Trans vinir, enskt heiti Trans allies. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Trans vinir er opið öllum þeim sem starfa vilja eftir markmiðum félagsins. Ekki verður haldin formleg félagsskrá en stjórn félagsins veður með lista yfir netföng þeirra sem óska eftir að vera á listanum. Netfangalistinn er eingöngu notaður til fréttaflutnings vegna starfsemi félagsins og til að auglýsa viðburði á vegum félagsins. Þeir sem eru á netfangalistanum teljast vera félagsmenn í skilningi samþykktanna.

3. gr.
Markmið og hlutverk félagsins er að:
– Efla félagsleg tengsl á meðal foreldra og forsjáraðila trans barna, ungmenna og fullorðinna trans einstaklinga.
– Stuðla að félagslífi fyrir börn og ungmenni sem eru trans og þeirra sem eru ekki viss um sína kynvitund.
– Styrkja og stuðla að frumkvæði allra foreldra/forsjáraðila trans einstaklinga, til að standa fyrir viðburðum þar sem allir félagsmenn Trans vina skulu hafa jafnan kost á að vera þátttakendur.
– Standa fyrir viðburðum fyrir alla félagsmenn og fjölskyldur minnst tvisvar á ári og taka þátt í Hinsegin dögum.
– Auka samstöðu og samheldni foreldra/forsjáraðila trans einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem taka þátt í starfsemi Trans vina.
– Vera vettvangur fyrir foreldra/forsjáraðila sem eru að kynnast hinsegin samfélaginu, til að styrkja barnið sitt og veita þeim stuðning í formi fræðslu og félagsskapar.
– Vera þrýstihópur til að koma málefnum okkar á framfæri. Þar á meðal gagnvart stjórnvöldum, heilbrigðiskerfinu og öðrum stofnunum sem koma að okkar málefnum.

4. gr.
Félagsaðild er öllum frjáls sem hafa áhuga á málefnum trans barna, ungmenna og fullorðinna trans einstaklinga á Íslandi og vilja aðstoða við að koma þeim áfram.

5. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn leggja fram skýrslu. Þeir sem taka þátt í starfi Trans vina mega vera þátttakendur á aðalfundi og munu boð berast samkvæmt netfangalista félagsins.

6. gr.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. mars ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
4. Lagabreytingar
5. Kosning stjórnar og tveggja félagslegra skoðunarmanna
6. Önnur mál
Stjórn er heimilt að setja aðra liði á dagskrá aðalfundar telji hún það nauðsynlegt.

7.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð a.m.k. fimm félagsmönnum kjörnum á aðalfundi til tveggja ára í senn, þau bera jafna ábyrgð á starfsemi félagsins. Á stofnfundi eru tveir kosnir í stjórn til eins árs. Einnig er heimilt að kjósa allt að tvo varamenn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Stjórn félagsins boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar. Félagslegir skoðunarmenn fara yfir reikninga félagsins og kanna bókhaldsgögn þess. Skýrsla félagslegra skoðunarmanna skal vera hluti af ársreikningi félagsins. Skoðunarmenn reikninga verða kosnir á aðalfundi félagsins.

8.gr.
Félagið mun fjármagna sig með því að sækja um styrki, taka á móti frjálsum framlögum og halda viðburði til fjáröflunar.

9. gr.
Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið í fræðsluefni eða viðburð á vegum félagsins. Félagið má eiga sjóð á milli ára ef safnað er fyrir stórum viðburðum á vegum félagsins, eins og ráðstefnu fyrir félagsmenn og aðra áhugasama um málefni félagsins. Stjórn skal ekki stofna til skulda í nafni félagsins nema með samþykki meirihluta á löglega boðuðum fundi.

10 gr.
Samþykktum þessum verður eingöngu breytt á löglegum aðalfundi, meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Allar tillögur að breytingum skulu berast stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund.

11. gr.
Ef starfsemi félagsins leggst niður skulu eignir þess og gögn sett til varðveislu hjá Samtökunum 78 í Reykjavík þar til félagið verður endurvakið. Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi tvö ár í röð og skal auglýsa slíkt eins og um breytingu á samþykktum þessum sé að ræða. Eignum félagsins skal ráðstafað á sama fundi. Til að slík tillaga teljist samþykkt skal hún tekin með einföldum meirihluta atkvæða.

Samþykktir þessar voru samþykktar á stofnfundi félagsins
Dagsetning: 14.01.2019

Stjórn:
– Birna Björg Guðmundsdóttir

– Dagný Guðmundsdóttir

– Guðrún Häsler

– Heidi Didriksen

– María Bjarnadóttir

Varamenn:
– María Gunnarsdóttir

– Ingunn Ósk Magnúsdóttir